
Við sjóinn Ómar Hafliðason kafari mun hafa umsjón með nýja fjölgeislamælinum. Tækið er notað við ýmsar haf- og botnrannsóknir. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Sviðsljós Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Fjölgeislamælir nefnist nýjasta tæki Köfunarþjónustunnar ehf. Tækið var keypt af Ísmar ehf. og kostar nokkra tugi milljóna.
Sviðsljós
Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Fjölgeislamælir nefnist nýjasta tæki Köfunarþjónustunnar ehf. Tækið var keypt af Ísmar ehf. og kostar nokkra tugi milljóna. Það er hið eina sinnar tegundar á Íslandi og er notað við ýmsar haf- og botnrannsóknir.
„Köfunarþjónustan keypti fyrirtækið Jarðfræðistofa Kjartans Thors ehf. fyrir ári. Jarðfræðistofan hefur til fjölda ára stundað allskonar rannsóknir á sjó og var með einlínumæli sem er fyrirrennari fjölgeislamælisins. Það eru gerðar meiri kröfur til þessara mælinga í dag og því var ákveðið að fjárfesta í nýjustu tækni,“ segir Ómar Hafliðason, atvinnukafari og rafeindavirki, en hann mun sjá um fjölgeislamælinn hjá Köfunarþjónustunni.
„Með þessu útvíkkum við þjónustu okkar við alla þá sem hafa einhverja hagsmuni af sjó og vötnum landsins. Það er gríðarleg þörf fyrir svona tæki á mörgum stöðum, þarf nýjar og nákvæmar mælingar.“
Góð þjónusta við hafnir
Fjölgeislamælirinn mælir sjávarbotninn mjög nákvæmlega niður á 300 metra dýpi, í honum eru 512 geislar og nær geislinn 160° út til hliðanna og beint undir bátinn sem hann er fastur við.
„Nú get ég skoðað með mikilli nákvæmni, bryggjuþil, brúarstólpa, rafstrengi og vatnslagnir út í eyjar, fundið flök og tækið reynist mjög vel við líkleit. Ég get mælt dýpi á höfnum landsins og siglingaleiðum og gert mælingar fyrir og eftir dýpkunarframkvæmdir. Tækið nýtist vel á uppistöðulónum virkjana og öðrum vötnum, til allskonar rannsókna,“ segir Ómar spurður í hvað tækið nýtist. „Við getum boðið höfnum landsins upp á miklu betri þjónustu. Til dæmis hafa þeir á Höfn í Hornafirði mikla þörf fyrir mælingu fyrir höfnina. Þar er sandurinn alltaf á fleygiferð og þarf að fylgjast vel með honum. Þeir eru með áhyggjur af djúpristum skipum sem koma inn og vilja vera með nýjustu mælingar, hvar sandurinn er og hvert dýpið er. Mælirinn er líka notaður til að leita að sandnámum en það getur greint kornastærðina á botninum. Í höfnum erlendis er það notað í neðansjávareftirlit en á slíku er ekki þörf hér.“
Léttur og hreyfanlegur
Fjölgeislamælirinn kemur til landsins nú fljótlega á nýja árinu og eru þegar farnar að berast pantanir.
„Það þarf bara einn mann til að stjórna mælinum og það er stór kostur við hann, fram yfir önnur tæki á markaðnum, að hann er hreyfanlegur. Ég get bara hoppað upp í flugvél með tækið og mælt þar sem þarf. Hingað til hafa þessir mælar verið fastir í bátum og skipum og þau þurft að sigla á staðinn. Þetta tæki er fyrirferðarlítið og vinnan fljótlegri og ódýrari, ég fer bara á milli báta með það. Ég festi mælinn á borðstokk á bát og neðan á honum er stykki sem horfir ofan í sjóinn.“
Að lokinni mælingunni tekur heilmikil tölvuvinna við að sögn Ómars, eyða þarf truflunum og útfæra myndina. „Það sem viðskiptavinurinn fær í hendurnar, er 3 víðar myndir af viðfangsefninu, eða aðrar útfærslur, allt eftir þörfum hans.“
Eldri og ólíkir mælar til
Fjölgeislamælirinn kemur til landsins á næstu dögum. Eins og áður segir verður hann sá eini sinnar tegundar hér á landi. Siglingastofnun á eldri gerðina af honum sem þykir orðin döpur í dag að sögn Ómars. Þá er Hafrannsóknastofnun með risastóran fjölgeislamæli í einu skipa sinna.
„Sá mælir er mjög stór og öflugur, getur séð niður á 1.000 metra dýpi og er notaður til að mæla á úthöfunum. Það er ekki hægt að mæla með honum á sama stað og fjölgeislamælinum okkar, hann er á svo litlu dýpi; uppi í fjörum og nálægt landi og er með miklu fínni mynd.“